Tónlist

Nýtt lag væntanlegt frá Bríeti

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Söngkonan Bríet sendir frá sér lagið Cold Feet 21. janúar næstkomandi
Söngkonan Bríet sendir frá sér lagið Cold Feet 21. janúar næstkomandi Instagram @brietelfar

Íslenska súperstjarnan og söngkonan Bríet er flestum kunnug þar sem hún hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna á síðastliðnum árum.

Lögin hennar eiga það til að vera ansi grípandi og eru ófáir sem geta til dæmis auðveldlega raulað með Rólegur kúreki og Esjan.

Þessi farsæla listakona tilkynnti á Instagram síðu sinni í gær að hún ætli að senda frá sér nýtt lag 21. janúar. Lagið heitir Cold Feet en Bríet hefur nú þegar flutt lagið fyrir tónleikagesti á útgáfutónleikum plötunnar Kveðja, Bríet í október síðastliðnum. Þá var myndband við lagið einnig frumsýnt á tónleikunum og ríkir mikil spenna fyrir því að lagið fari í spilun.

Minningar úr köldu glerboxi sitja eftir

Þrátt fyrir að hér sé glænýtt lag væntanlegt er það þó nokkurra ára gamalt. Undirrituð heyrði í Bríeti og fékk að heyra stuttlega um ævintýri lagsins Cold Feet.

„Ég tók upp lagið fyrir þremur árum og gerði tónlistarmyndband veturinn 2019 á stysta degi ársins,“ segir Bríet og bætir við:

 „Svo að minningar um að sitja í köldu glerboxi í fjóra klukkutíma sitja eftir.“ 

Gera má ráð fyrir miklum kulda á þessum árstíma og hefur án efa verið ansi krefjandi að vera í tökum klukkutímum saman.

Ástarsorgin tók yfir á sínum tíma

Upphaflega átti lagið að koma fyrr út en lífið er jú óútreiknanlegt og maður verður að fylgja eigin flæði sem og Bríet gerði. „Þegar að lagið átti svo að koma út tók ástarsorgin yfir og þetta sat á hakanum. Hér erum við svo þremur árum síðar.“ 

Tilkynning hennar á Instagram um nýja lagið hefur fengið virkilega góðar viðtökur og er greinilegt að aðdáendur söngkonunnar eru þyrstir í meira efni frá henni. Þeir geta því glaðst yfir því að það eru fleiri lög væntanleg.

„Ég ætla að vera dugleg að gefa út meira efni! Það kemur eitt íslenskt í febrúar en svo ætla ég að halda mér við enskuna og blæða frá mér lögum,“ segir Bríet að lokum.


Tengdar fréttir

Bríet gerði áhorfendur agndofa í Hörpu

Söngkonan Bríet hélt tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu á föstudag. Á tónleikunum sýndi þessi listakona enn og aftur hversu ótrúlega hæfileikarík og fjölhæf hún er. 

Bríet sigur­sælust á Ís­lensku tón­listar­verð­launum

Bríet, Haukur Gröndal, Hjaltalín og Ingibjörg Turchi voru hvað sigursælust þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í kvöld. Verðlaunin voru veitt í Norðurljósum Hörpu í kvöld og var hátíðinni streymt í beinni á RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×