Menning

„Tilvalið tækifæri fyrir íslenskt kvikmyndafólk“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Atli Arnarsson sigurvegari tekur við Sprettfisknum 2020.
Atli Arnarsson sigurvegari tekur við Sprettfisknum 2020. AÐSEND

Sprettfiskur er stuttmyndasamkeppni Stockfish kvikmyndahátíðarinnar þar sem markmiðið er að vekja athygli á upprennandi íslensku kvikmyndagerðarfólki.

Stuttmyndasamkeppnin fer fram hér á landi dagana 24. mars - 3. apríl 2022 og umsóknarfrestur er til 10. febrúar næstkomandi. Viðburðarstjóri hjá Stockfish, María Kjartansdóttir, segir í samtali við Lífið á Vísi að hér sé um að ræða öflugt tækifæri fyrir íslenskt kvikmyndagerðafólk. Í ár verður sú nýbreytni að keppt verður í fjórum flokkum stuttra kvikmyndaverka og skiptast þeir í skáldverk, heimildaverk, tilraunaverk og tónlistarverk. Sigurvegari hvers flokks hlýtur verðlaun að verðmæti allt að tveggja milljóna króna.

„Á hverju ári býður Stockfish erlendum gestum alls staðar að úr heiminum til að koma og upplifa hátíðina með okkur. Þessir gestir koma frá öllum sviðum kvikmyndageirans og taka þátt í hátíðinni á ýmsa vegu,“ segir María og bætir við: „Þar á meðal eru blaðamenn og fulltrúar frá virtum kvikmyndahátíðum, kvikmynda miðstöðvum, framleiðslufyrirtækjum, sérfræðingar í kynningarmálum kvikmynda og sölu- og dreifingaraðilar.“

María segir viðveru þessara aðila á hátíðinni vera gríðarlega mikilvæga fyrir hátíðina sjálfa og það kvikmyndagerðarfólk sem tekur þátt eða sýnir verk sín á hátíðinni.

„Þannig gefst tilvalið tækifæri fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk til þess að tengjast þessum aðilum og kynna fyrir þeim verkefni sín.“

Hún hvetur alla áhugasama til þess að kynna sér málið betur en nánari upplýsingar um umsóknarskilyrði og þátttökufrest má finna hér.

„Þess má geta að eftir síðustu hátíðir hafa orðið fjölmörg viðskiptasambönd þar sem íslensk kvikmyndaverk fengu erlenda meðframleiðendur og fjármagn erlendis frá í kjölfar tengslamyndunar á bransadögum hátíðarinnar,“ segir María að lokum.


Tengdar fréttir

Atli og Sólrún Ylfa unnu Sprettfiskinn

Í gær var lokakvöld Stockfish kvikmyndahátíðarinnar í Bíó Paradís og sigurvegari í stuttmyndasamkeppninni Sprettfiskurinn kynntur. Myndin Kitchen By Measure/Eldhús eftir máli var valinn sigurvegari keppninnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×