„Við gefumst aldrei upp og höfum sýnt það, nema kannski í síðasta leik sem var hauskúpuleikur. Strákarnir voru ógeðslega flottir í vörninni og ég þurfti bara að launa þeim það með nokkrum vörslum. Þá kom stemmning og þetta small allt saman,“ sagði Sigurjón við Vísi eftir leik.
Hann var lengi í gang og varði ekki skot fyrr en á 17. mínútu. Eftir enn eitt skot Frammara sem hafnaði í netinu fór Sigurjón til föður síns og fékk ráðleggingar. Sá getur heldur betur miðlað af reynslu sinni enda leikjahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins, sjálfur Guðmundur Hrafnkelsson.
„Hann var alltaf að segja mér að [Þorsteinn] Gauti [Hjálmarsson] setti hann alltaf í fjær. En ég var svo þrjóskur og tók einn bolta í nær. Þá gíraðist ég, tók næsta bolta og svo rúllaði þetta. Það er gott að hafa pabba á kústinum,“ sagði Sigurjón.
HK hefur oft farið illa að ráði sínu á lokamínútunum í vetur en ekki í dag. HK-ingar sýndu styrk þegar mest á reyndi og landaði stigunum tveimur.
„Við höfum verið í svo mörgum jöfnum leikjum og höfum rætt þetta. Núna ákváðum við að setja hausinn undir okkur og kýla á þetta. Hvað er það versta sem getur gerst?“ sagði Sigurjón að lokum.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.