Mest um vert er þar framboð Þórdísar Sigurðardóttur, stjórnarmanns og fyrrverandi framkvæmdastjóra Hjallastefnunnar, en hún skorar nöfnu sína og sitjandi oddvita, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur á hólm.
Það var Innherji sem greindi fyrst frá því að Þórdís Sigurðardóttir lægi undir feldi en hún kynnti formlega um framboð sitt í vikunni. Ljóst er þar með að forystu Viðreisnar verður að ósk sinni um slag í fyrsta alvöru prófkjöri Viðreisnar sem stjórnmálaafls.
Þeir sem vel til þekkja innan flokksins segja að nú fari fram spennandi prófkjörsbarátta milli þeirra tveggja.
Þórdís Lóa hefur helst legið undir ámæli fyrir að þykja býsna höll undir Dag og meirihlutann í borginni og hafa þannig mistekist að gera Viðreisn að raunhæfum valkosti borgaralegra sinnaðra Reykvíkinga. Hún sé hins vegar flinkur formaður borgarráðs og vel að sér um hin ýmsu mál sem undir málefnasvið borgarfulltrúa heyra.
Þórdís Sigurðardóttir er á sama tíma dálítið óskrifað blað sem ekki hefur áður látið til sín taka á pólítíska sviðinu. Viðreisnarfólk gerir sér vonir um að hún taki flokkinn lengra til hægri, ekki síst þegar kemur að því að skerpa á áherslum flokksins um að standa með atvinnulífi í borginni, og sé ef til vill fær um að sannfæra hægrisinnað fólk í borginni um að kjósa sjálfstæða stjórnmálaaflið Viðreisn.
Slagurinn hefst af alvöru á morgun, enda ekki seinna vænna, nú þegar aðeins rúmar tvær vikur eru þar til skorið verður úr um af flokksmönnum hvor þeirra hreppir hnossið.
Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.