Handbolti

Afturelding vann Selfoss í sveiflukenndum leik

Atli Arason skrifar
Birkir Benediktsson, leikmaður Aftureldingar
Birkir Benediktsson, leikmaður Aftureldingar VÍSIR/BÁRA

Afturelding vann Selfoss 33-31 í Olís-deild karla í leik sem hefði getað fallið öðru hvoru megin.

Afturelding gerði fyrsta mark leiksins en stuttu síðar tóku gestirnir frá Selfossi yfir og Selfyssingar leiddu leikinn allan fyrri hálfleik og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-15. 

Heimamenn í Aftureldingu byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náði að minnka muninn niður í eitt mark með fyrstu tveimur mörkum síðari hálfleiks. Selfoss hélt þó forystunni alveg þangað til rúmar 10 mínútur voru eftir en þá ná heimamenn forskotinu með marki Þorsteins Leós Gunnarssonar í stöðunni 26-25. 

Leikurinn var í járnum síðustu tíu mínúturnar og bæði lið skiptast á því að leiða leikinn þangað til heimamenn ná tveggja marka forystu þegar þrjár mínútur lifðu eftir af leiknum. Afturelding hélt út þrátt fyrir hetjulega baráttu hjá Selfossi, lokatölur 33-31 fyrir Mosfellinga.

Afturelding jafnar KA að stigum í sjöunda sæti en bæði lið eru nú með 14 stig, stigi á eftir Selfossi sem er í sjötta sæti.

Birkir Benediktsson var markahæstur hjá Aftureldingu með 8 mörk úr 9 skotum en Selfyssingarnir Einar Sverrisson og Guðjón Baldur Ómarsson voru markahæstu leikmenn vallarins með 9 mörk hvor. Guðjón í jafn mörgum skotum en Einar í 13 skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×