Handbolti

Alexander tekinn inn í frægðarhöll Löwen og treyjan upp í rjáfur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson var heiðraður fyrir leik Rhein-Neckar Löwen og Melsungen í gær.
Alexander Petersson var heiðraður fyrir leik Rhein-Neckar Löwen og Melsungen í gær. facebook-síða rhein-neckar löwen

Rhein Neckar-Löwen heiðraði Alexander Petersson fyrir leik liðsins gegn Melsungen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í gær.

Fyrir leikinn í SAP höllinni í Mannheim var lítil athöfn þar sem Alexander var tekinn inn í frægðarhöll Löwen og treyja hans, númer 32, hengd upp í rjáfur.

„Hann klæddist ljónatreyjunni í níu ár. Barðist, hló, grét og vann titla. TAKK fyrir allt Alexander Petersson og velkominn í frægðarhöllina,“ segir á Twitter-síðu Löwen.

Alexander skoraði eitt mark fyrir Melsungen í leiknum í gær sem Löwen vann, 29-26. Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson eitt. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen.

Alexander lék með Löwen á árunum 2012-21. Á þeim tíma varð hann tvívegis þýskur meistari, einu sinni bikarmeistari, vann EHF-bikarinn einu sinni og þýska ofurbikarinn í þrígang.

Hinn 41 árs Alexander hefur leikið í Þýskalandi frá 2003 og er á sínu nítjánda tímabili þar í landi. Hann fór til Flensburg um mitt síðasta tímabil og svo til Melsungen í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×