Jónatan er annar leikmaðurinn sem Sogndal kaupir frá FH í vetur. Í janúar gekk bakvörðurinn Hörður Ingi Gunnarsson til liðs við Sogndal.
Þrír Íslendingar eru í herbúðum Sogndal en Valdimar Þór Ingimundarson leikur einnig með liðinu.
Jónatan, sem er 23 ára, lék alla 22 deildarleiki FH á síðasta tímabili og skoraði sex mörk. Hann fór ungur að árum til AZ Alkmaar í Hollandi en sneri aftur heim í FH 2018. Jónatan hefur leikið 73 leiki í efstu deild og skorað þrettán mörk.
„Núna einbeiti ég mér að Sogndal. Ég vonast til að geta hjálpað liðinu að fara upp um deild. Ég mun berjast um sæti liðinu og skora vonandi nokkur mörk,“ sagði Jónatan á heimasíðu Sogndal.
Á síðasta tímabili endaði Sogndal í 6. sæti norsku B-deildarinnar. Eftir tímabilið tók Tore André Flo, fyrrverandi framherji Chelsea og norska landsliðsins, við Sogndal.