Handbolti

Viggó markahæstur í Íslendingaslag | Sjö mörk Bjarka dugðu ekki til

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson átti góðan leik í kvöld.
Viggó Kristjánsson átti góðan leik í kvöld. Getty/Tom Weller

Það var nóg um að vera hjá íslensku leikönnunum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, en alls voru tíu Íslendingar í eldlínunni í þeim fimm leikjum sem fram fóru.

Viggó Kristjánsson var markahæsti maður vallarins með tíu mörk er Stuttgart vann góðan þriggja marka sigur gegn Daníel Þór Ingasyni og félögum hans í HBW Balingen-Weilstetten, 28-25. Andri Már Rúnarsson leikur einnig með Stuttgart, en hann komst ekki á blað.

Þá fór einnig fram annar Íslendingaslagur þegar Melsungen tók á móti Göppingen. Elvar Örn Jónsson, Arnar Freyr Arnarsson og Alexander Petersson leika með Melsungen og Janus Daði Smárason leikur með Göppingen. Það voru að lokum gestirnir í Göppingen sem unnu tveggja marka endurkomusigur, 26-24, eftir að hafa verið fimm mörkum undir í síðari hálfleik.

Elvar Örn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir Melsungen og Alexander Petersson tvö. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað, en Janus Daði Smárason skoraði eitt fyrir Göppingen.

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo máttu þola fjögurra marka tap gegn Leipzig, 29-25, en Bjarki Már var atkvæðamestur í liði Lemgo með sjö mörk.

Að lokum töpuðu Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Neckar Löwen með sex marka munr gegn Hamburg og Arnór Þór Gunnarsson og félagar hans í Bergischer máttu þola sjö marka tap gegn Erlangen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×