„Ég fór til Íslands og tólf klukkutímum síðar stofnuðum við þessa hljómsveit,“ segir Jānis Pētersons, söngvari Citi Zēni. Hann segir fegurð íslensku náttúrunnar hafa verið innblástur að laginu Eat Your Salad.

Í laginu syngja þeir meðal annars að það sé töff að vera grænn og borða salatið sitt. Þeir eru léttir og skemmtilegir í framkomu en segja lagið þó fela í sér mikilvæg skilaboð.
„Við þurfum að hugsa vel um náttúruna, jafnvel þó það sé bara með litlu hlutunum sem við gerum. Við reyndum að gera mjög alvarleg skilaboð mjög skemmtileg og vonandi skilar það sér áleiðis,“ segja hljómsveitarmeðlimirnir en þeir eru allir grænmetisætur.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Dóra Júlía Agnarsdóttir eru fulltrúar fréttastofunnar á Eurovision í Tórínó á Ítalíu. Munu þær birta fréttir, viðtöl, hlaðvörp og auðvitað líka reglulega þætti af Júrógarðinum.
Alla umfjöllun okkar um Eurovision keppnina má finna HÉR á Lífinu á Vísi.