Varamaðurinn Oliver Haurits tryggði Stjörnunni 1-0 sigur á Val með marki á annarri mínútu uppbótatímans aðeins sjö mínútum eftir að hann kom inn á fyrir markahæsta leikmann Bestu deildarinnar.
Haurits átti ekki í miklum vandræðum með að renna boltanum í markið en áður höfðu örvfættu reynsluboltarnir Þórarinn Ingi Valdimarsson og Óskar Örn Hauksson opnað vörn Valsmanna með frábærri samvinnu.
Þórarinn Ingi þræddi boltanum úr öftustu línu inn í frábært hlaup Óskars Arnar inn í teiginn og Óskar Örn gerði mjög vel að finna Haurits galopinn fyrir framan markið.
Matthías Vilhjálmsson kom FH í 1-0 á móti ÍBV og Davíð Snær Jóhannsson opnaði síðan markareikning sinn hjá Hafnarfjarðarliðinu í þessum 2-0 sigri.
Daníel Hafsteinsson, Elfar Árni Aðalsteinsson og Jakob Snær Árnason skoruðu mörk KA í 3-0 á ÍA upp á Skaga en mark Daníels var sérstaklega glæsilegt þrumuskot fyrir utan teig sem endaði upp í bláhorninu á marki Skagamanna.
Hér fyrir ofan og neðan má sjá öll mörkin sem voru skoruð í Bestu deildinni í gær og fyrir neðan lengri útgáfu af hinum glæsilega undirbúningi Þórarins Inga og Óskars Arnar.