Handbolti

Bjarki skoraði níu í jafntefli

Atli Arason skrifar
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már Elísson í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Tamas Kovacs

Það voru 16 íslensk mörk í fimm leikjum í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Bjarki Már var með langflest þeirra. 

Janus Daði Smárason og félagar í Gröppingen gerðu jafntefli við Lemgo með Bjarka Má Elísson í fararbroddi, 33-33. Enginn skoraði fleiri mörk en Bjarki sem skoraði níu mörk í tíu tilraunum. Janus Daði gerði eitt mark úr tveimur skotum.

Oddur Grétarsson og Daníel Þór Ingason í HBW Balingen-Weilstetten gerðu einnig jafntefli, 23-23 við Füchse Berlin. Oddur skoraði þrjú mörk í fjórum tilraunum en Daníel tókst ekki að nýta einu marktilraun sína í leiknum.

Alexander Petersson og Arnar Freyr Arnarsson, leikmenn Melsungen, komust hvorugir á blað í fimm marka sigri liðsins á Wetzlar, 27-22.

Ýmir Örn Gíslason komst heldur ekki á blað í 26-33 tapi Rhein-Neckar Löwen gegn Kiel.

Arnór Þór Gunnarsson og félagar í Bergischer unnu þriggja marka sigur á útivelli gegn Flensburg, 21-24. Arnór Þór skoraði úr öllum þremur skotum sínum í leiknum.

Gröppingen er í 5. sæti deildarinnar með 38 stig, Lemgo kemur þar á eftir í 6. sæti með 35 stig.  Melsungen er í 8. sæti með 33 stig, Rhein-Neckar er í 10. sæti með 30 stig og Bergischer með 27 stig í 11. sæti. HBW er í vandræðum en liðið er í fallsæti, 17. og næst neðsta sæti deildarinnar með 16 stig. Liðin eiga öll tvo til þrjá leiki eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×