Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fórst þú fyrst á Þjóðhátíð?
Ég fór fyrst á Þjóðhátíð seint á síðustu öld, ‘99. Hátíðin var allt sem var búið að lýsa fyrir mér og svo miklu, miklu meira. Andrúmsloftið og stemningin er eitthvað sem er ekki hægt að lýsa nema að svo litlu leyti.
Svo eru brekkublysin eitthvað sem fólk verður að upplifa allavega einu sinni á ævinni.
Hvað finnst þér skemmtilegast við þessa hátíð?
Eiginlega allt. Umhverfið, gestrisni Eyjamanna og bara almenn upplifun er eitthvað sem situr alltaf eftir í minningunni. Þegar ég svo fór að koma fram á þessari hátíð var það allt önnur upplifun. Þú kemst ekkert á stærra svið á Íslandi.
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þú stígur á svið?
Fólk má bara búast við skemmtilegri stund með vinum og vandamönnum með söng og gleði.
Fólkið í brekkunni eru aðalflytjendurnir í brekkusöngnum.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið þitt?
Úff, erfið spurning. Þar sem hjartað slær hefur haft vinningin upp á síðkastið en þau eru bara svo mörg. Ég verð líka að nefna Ég veit þú kemur og svo finnst mér nýja lagið, Eyjanótt með Klöru, alveg frábært.
Hvernig ætlar þú að undirbúa þig fyrir stóru stundina?
Ég hef svo sem enga sérstaka rútínu. En þegar maður er að fara í svona stórt gigg er þetta bara spurning um að halda réttu spennustigi. Mér þykir líklegt að ég verji bara sem mestum tíma með konunni minni, henni Sigríði minni. Hún kann að halda mér niðri á jörðinni ef hausinn fer á eitthvað flug.