Innlent

Ís­lendingar of seinir að bóka til að fá hótel­her­bergi á sumrin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Erlendir ferðamenn hafa verið á undan Íslendingum að bóka hótelherbergi um land allt. Víða er allt uppbókað.
Erlendir ferðamenn hafa verið á undan Íslendingum að bóka hótelherbergi um land allt. Víða er allt uppbókað. Vísir/Vilhelm

Tæplega 180 þúsund erlendir ferðamenn ferðuðust um Ísland í síðasta mánuði, nærri þrefalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Hótelstjórar um land allt hafa tekið eftir aukningunni og segja nánast uppbókað í allt sumar. 

Lang flestir erlendra ferðamanna sem ferðuðust frá Íslandi í júnímánuði voru frá Bandaríkjunum, eða rúmlega þrjátíu prósent þeirra sem hér voru. Næst á eftir voru Þjóðverjar, sem námu um tólf prósent erlendra ferðamanna sem hingað komu samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.

Vegna kórónuveirufaraldursins er fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi, miðað við árin 2020 og 2021 því gríðarleg. Í júnímánuði 2020 komu hingað tæplega 6.000 erlendir ferðamenn en í fyrra rúmlega 42 þúsund.

„Núna yfir sumartímann þá eru þetta aðallega erlendir ferðamenn,“ segir Berglind Arnardóttir, hótelstjóri á Hótel Búðum. 

Hótelstjórar um allt land sem fréttastofa hefur rætt við í morgun taka undir þetta. Erlendir ferðamenn séu í miklum meirihluta. Íslendingar skipuleggi ferðalög innanlands með of stuttum fyrirvara.

„Ég held við séum bara allt of óskipulögð þegar við ætlum að plana ferðalög innanlands. Ég held það sé þá meira spontant að ætla að kíkja á Búðir en þá er allt bara orðið pakkað hjá okkur,“ segir Berglind.

„Það er ekki mín upplifun að þeir vilji ekki koma, það er bara að þeir komast ekki að.“

Ferðamannatíminn hafi þá byrjað strax í apríl.

„Eftir að tvær fyrstu vikurnar voru liðnar í júní þá var full on allt bókað og ekki séns að fá neina gistingu en eins og núna þá er þetta bara að byrja miklu fyrr,“ segir Berglind.


Tengdar fréttir

Eins og Íslendingar hafi farið til sólarlanda þetta sumarið

Mun færri Íslendingar hafa sést á tjaldsvæðum Austfjarða í ár en í fyrra og þar spyrja menn sig hvort sólarlandafrí hafi orðið ofan á hjá landsmönnum þetta sumarið. Tímabil erlendra ferðamanna virðist hins vegar vera að lengjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×