Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fóruð þið fyrst á Þjóðhátíð?
Ég fór á mína fyrstu Þjóðhátíð 2001, en við fórum fyrst á svið að skemmta 2015 minnir mig.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast við þessa hátíð?
Eiginlega allt! Eyjamenn eru eitthvað skemmtilegasta fólk landsins og höfðingjar heim að sækja.
En vissulega stendur upp úr að standa fyrir framan 18.000 manns á sviði og skemmta. Þetta er eina giggið á Íslandi þar sem maður labbar af sviðinu í gigg vímu.
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þið stígið á svið?
Stemningu! Held að ástæðan fyrir stemningunni sem við náum sé að fólkið sér að okkur finnst þetta jafn gaman og þeim.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið ykkar?
Af okkar lögum er erfitt að gera upp á milli, Ég fer á þjóðhátíð og Komið að því. En svona over all er það líklegast Þar sem hjartað slær.
Hvernig ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir stóru stundina?
Taka tvo til þrjá kalda yfir daginn, fara í safari um eyjarnar, hrista af sér stressið baksviðs. Labba upp að sviðinu þar sem við Steindi og Egill tökum smá faðmlag og hendum í: „Let's give them a f-ing show!“