Þjóðhátíð 2022 fer fram með pompi og prakt í Heimaey í lok júlí í ár. Fjölbreytt flóra íslensks tónlistarfólks mun stíga á svið og skemmta gestum en hátíðin er nú haldin í fyrsta skipti frá árinu 2019. Lífið á Vísi tekur hér púlsinn á tónlistarfólkinu og fær nánari innsýn í atriðið þeirra á Þjóðhátíð.
Hvenær fóruð þið fyrst á Þjóðhátíð?
Ég hef aldrei farið á Þjóðhátíð áður. Reykjavíkurdætur eru að spila þar í fyrsta skipti líka en sumar af stelpunum hafa spilað með öðrum hljómsveitum þarna.
Hvað finnst ykkur skemmtilegast við þessa hátíð?
Þura Stína sem er með mér í hljómsveitinni er úr Eyjum og talar mikið um að Þjóðhátíð sé besta hátíð í heimi.
Hún talar mikið um hvítu tjöldin sem fjölskyldurnar úr Eyjum eru með þar sem er boðið upp á fiskisúpu og samsöng. Ég er mjög spennt fyrir því og líka brekkusöngnum. Er ekki eitthvað Íslandsmet i brekkusöng þarna á hverju ári?
Við hverju mega hátíðargestir búast þegar þið stígið á svið?
Vá bara öllu. Við munum gefa allt okkar í þetta.
Við höfum verið að koma fram á allskonar festivölum í útlöndum síðustu ár og það er alltaf brjálað gaman þótt að fólk skilji ekki neitt hvað við erum að segja.
Það verður gaman að gera þannig show fyrir Íslendinga.
Hvað er uppáhalds Þjóðhátíðarlagið ykkar?
Einu sinni var ég með Eyja meyja og peyja lagið með Jóni Jónssyni sem biðtón þegar hringt var i mig. Mér fannst svo fyndið að neyða fólk til að hlusta og þarafleiðandi fá lagið á heilann. En síðan hótuðu vinir mínir að hætta að hringja þannig að ég skipti eftir nokkra daga.
Hvernig ætli þið að undirbúa ykkur fyrir stóru stundina?
Það hefur myndast rútína hjá okkur i gegnum árin og fyrir stór gigg þá gerum við okkur til saman og förum yfir showið. Þá rifjum við upp hvernig við útfærum ætlum að útfæra hluti og ef það er eitthvað sérstakt sem við viljum hafa í huga.
Síðan tökum við alltaf einbeitingarhring rétt áður en við förum á svið þar sem við horfumst í augu og gerum svo berju. Við höfum gert þessa sömu rútínu síðan 2017.