Þór/KA hafði spilað fjóra leiki í röð í deildinni án þess að skora þar sem síðustu mörk liðsins komu í 3-3 jafntefli við botnlið KR þann 14. júní. Liðið hafði þá ekki fagnað sigri frá 3-2 sigri á Keflavík þann 1. júní.
Það var því kærkominn 1-0 sigur sem vannst á Þrótti Reykjavík, sem missteig sig í baráttunni um Evrópusæti. María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði eina mark leiksins á 55. mínútu en markið má sjá að neðan.
Þór/KA fjarlægðist lítillega fallsvæðið með sigrinum en liðið er með 13 stig í áttunda sæti, jafnt Keflavík að stigum sem er sæti ofar, fjórum fyrir ofan Aftureldingu sem er með níu stig í níunda sæti. KR er með sjö stig á botninum.
Tap Þróttar gaf Stjörnunni tækifæri á að hirða af þeim 3. sæti deildarinnar og halda vonum sínum um Evrópusæti á lífi. Tvö efstu sæti deildarinnar gefa sæti í Meistaradeild Evrópu að ári.
Stjarnan mætti Aftureldingu, sem er líkt og Þór/KA að berjast á botninum. Mosfellingar byrjuðu betur en Eyrún Vala Harðardóttir kom liðinu yfir á 5. mínútu leiksins.
Þær leiddu 1-0 fram á 34. mínútu þegar Jasmín Erla Ingadóttir jafnaði leikinn en Gyða Kristín Gunnarsdóttir kom Stjörnunni yfir á 43. mínútu og Jasmín bætti öðru marki sínu við strax í næstu sókn. Staðan var því 3-1 í hálfleik fyrir Garðbæinga.
Hin nýsjálenska Betsy Hassett skoraði fjórða mark Stjörnunnar á 59. mínútu og Gyða Kristín skoraði annað mark sitt þremur mínútum síðar. Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði sjötta mark Stjörnunnar á 68. mínútu og þá innsiglaði Jasmín Erla þrennu sína og 7-1 sigur Stjörnunnar sex mínútum fyrir leikslok.
Stjarnan fer þá uppfyrir Þrótt í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig, en Þróttur er með 25 stig í því fjórða. Breiðablik er aðeins stigi ofar en Stjarnan og Valur er á toppnum með 32 stig. Efstu liðin tvö eiga bæði leik inni á Garðbæinga.
Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.