Hér má sjá myndbandið:
Árný Margrét er alin upp á Ísafirði skrifaði undir samning við útgáfufyrirtækið One Little Independent Records og hefur spilað á tónlistarhátíðum út fyrir landsteinana á borð við Newport Folk Festival ásamt því að hafa hitað upp fyrir tónlistarmennina Passenger, Leif Vollebekk, Blake Mills og fleiri. Blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að fá smá innsýn í hennar skapandi hugarheim.
Hvaðan sækir þú innblástur í tónlistinni?
Ég sæki innblástur í allt sem er í kringum mig, veðrið, umhverfið, fólk sem ég þekki og þekki ekki, lög og tónlistarmenn.
Stundum heyri ég bara eitthvað fallegt orð sem ég vil nota.
Hvernig gekk að taka upp þetta tónlistarmyndband og hvað stendur upp úr í ferlinu?
Þetta var ótrúlega skemmtilegt ferli, Icelandair hafði samband við okkur og voru mjög spennt yfir þessu verkefni. Þau voru tilbúin í nánast hvað sem er, maður fann fyrir viljanum og hvað þau voru til í að gera þetta vel, sem ég er ótrúlega þakklát fyrir. Við Erlendur Sveinsson leikstjóri unnum svo hugmyndina svolítið saman og úr varð þetta myndband.
Það sem stendur upp úr fyrir mig er allt tökuferlið og dagarnir fyrir vestan. Við keyrðum vestur í samfloti því fluginu var aflýst.
Hittumst í myrkrinu á morgnana og kláruðum í myrkrinu á kvöldin. Mikill snjór og ótrúlega kalt. En það gekk allt ótrúlega vel og við unnum mjög vel saman sem hópur.
Líka öðruvísi að fá að taka upp myndband á filmu, maður velur augnablikin betur, það er einhver fegurð í því.

Hvað er á döfinni?
Ég er að fara gefa út LP plötuna They only talk about the weather núna í október.
Annars eru einhverjar tónleikaferðir á plani, Iceland Airwaves og svo bara að taka upp næstu plötu.