Ljósmyndarinn segir frá gullskipinu í nýjasta þættinum af RAX Augnablik.
„Það voru tvö hundruð manns um borð og fórust næstum því tvö hundruð, ég held að það hafi bjargast einhverjir 45 eða 50. Um borð í þessu skipi eru mikil verðmæti. Til dæmis 35 tonn af koparstöngum og 236 demantar,“ segir RAX um ævintýraskipið. Frásögnina má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
„Ég bjóst alltaf við að þeir myndu finna það.“
Einhverjir hafa í gegnum árið talið sig hafa fundið gullskipið týnda.
„Þegar þeir fundu þennan borkjarna og voru að þefa af honum þá var kryddlykt öðrum megin og koníak hinum megin. Svo kom í ljós að þetta var nú eiginlega bara klósetthurðin af þýskum togara.“
Í þáttunum RAX Augnablik segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+.
Hægt er að sjá alla þættina hér á Vísi.
Gullskipið er ekki fyrsta skipið sem ljósmyndarinn hefur talað um í þáttunum RAX Augnablik. Hér fyrir neðan má sjá þrjá aðra þætti tengda skipum.
Víkartindur strandar
Flutningaskipið Víkartindur strandaði árið 1997 í brjáluðu veðri. Ragnar lagði í flugferð til þess að ná myndum af skipinu á meðan það barðist um briminu.
Þrjú skipsströnd
Snemma árs 1981 strönduðu þrjú skip við strendur Íslands, Katrín VE, Sigurbára, og Heimaey. Ragnar flaug og myndaði ströndin og björgun áhafnanna í svo slæmum veðrum að stundum óttuðust vinir og vandamenn um afdrif hans og förunauta hans.
Sjávarháski Shackletons
Í ferð sinni til Suðurskautsins sigldi Ragnar sömu leið og heimskautafarinn Ernest Shackleton sigldi á björgunarbát til þess að sækja björgun fyrir áhöfn sína sem hafðist við á Fílaeyju eftir að skip þeirra, Endurance, botnaði og sökk í sjóinn eftir að hafa setið fast í hafís í níu mánuði. Ragnar lenti í fárviðri á leiðinni líkt og Shackleton gerði rúmum hundrað árum fyrr, og Ragnar þurfti að binda sig fastan á þilfarinu til þess að ná myndum af samskonar háska og Shackleton og föruneyti lögðu sig í.