Handbolti

Elvar Örn framlengir hjá Melsungen

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson verður áfram í herbúðum MT Melsungen.
Elvar Örn Jónsson verður áfram í herbúðum MT Melsungen. Sanjin Strukic/Pixsell/MB Media/Getty Images

Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur skrifað undir nýjan samning við þýska úrvalsdeildarliðið MT Melsungen. Leikmaðurinn mun því spila með liðinu til ársins 2025.

Fyrri samningur Elvars við félagið átti að renna út næsta sumar og því er um tveggja ára framlengingu að ræða. Frá þessu er greint á heimasíðu Melsungen, en þar kemur fram að Elvar sé í burðarhlutverki hjá liðinu og að gríðarleg ánægja sé með fréttirnar.

Þá kemur einnig fram að mikil áhersla hafi verið lögð á að framlengja við Elvar þar sem önnur lið hafi verið með augastað á honum, þar á meðal lið sem leika í Meistaradeild Evrópu.

Elvar gekk í raðir Melsungen sumarið 2021 eftir tveggja ára veru hjá Skjern í Danmörku, en þar áður lék hann með uppeldisfélagi sínu, Selfoss, þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2019 og var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar árin 2018 og 2019.

Elvar fagnar nýja samningnum strax í dag þegar Melsungen tekur á móti Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni klukkan 14:00. Liðið hefur hins vegar ekki farið vel af stað á tímabilinu og hefur aðeins unnið einn leik af fyrstu sjö og situr í 15. sæti deildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×