Alþjóðlegt samfélag kvenna
Það er alþjóðlegt samfélag kvenna og kynbundinna minnihlutahópa með þá stefnu að tengja og styrkja þá hópa sem að hafa ekki hlotið nægan stuðning með það markmið að jafna völlinn í tónlistarheiminum fyrir alla. Stefna samfélagsins er að fræða, hvetja, tengja og skemmta meðlimum félagsins og bjóða upp á tækifæri og samvinnu og auka sýnileika meðlima bæði hér á landi og erlendis.
Vilja bæta tölurnar
„Ef horft er á þær prósentutölur sem aðilar frá STEF gefa út um konur sem starfa í stjórn tónlistar, vinna í tónlistaverum og framleiða tónlist þá sést að þær tölur eru enn skelfilega lágar,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu.
Þær sem standa að opnuninni hafa unnið hjá plötufyrirtækjum, tónlistarhátíðum, umboðsskrifstofum og markaðssetningu og snert á flestum hliðum tónlistar.
Vöntun á Íslandi
„Þegar ég flutti til baka til Íslands í miðjum Covid faraldri fann ég virkilega fyrir söknuð á samfélagi í kringum þá vinnu sem ég er að vinna. Þegar ég var í Keychange prógramminu, og hitti Christine Osazuwa frá hinu alþjóðlega Shesaid samfélagi, þá small það hjá okkur Kim að þetta var það sem vantaði í íslenska tónlistarmenningu.
Öruggt samfélag fyrir konur til að tengja saman þá vinnu sem að við gerum í tónlistarheiminum,“ segir Anna Jóna um verkefnið. Opnunarpartý verður haldið á Iceland Airwaves hátíðinni í næsta mánuði.
Fleiri konur komnar í verkefnið
Þær konur sem eru nú komnar inn sem partur af Shesaid opnun hér á landi eru þær Álfrún Kolbrúnardóttir stofnandi Flame Productions, Inga Magnes Weisshappel sem er að opna tónlistarforlagið Wise Music Group á Íslandi, Ása Dýradóttir frá Mammút og Tónlistarborgin Reykjavík, Unnur Karen Karlsdóttir tónlistarkona og Josie Anne Gaitens frá Grapevine.