Handbolti

Ýmir Örn hafði betur í bikarslag gegn Viggó

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ýmir Örn og félagar í Rhein-Neckar Löwen eru komnir áfram í bikarnum.
Ýmir Örn og félagar í Rhein-Neckar Löwen eru komnir áfram í bikarnum. Vísir/Getty

Ýmir Örn Gíslason og félagar hans í Rhein-Necker Löwen eru komnir áfram í þýsku bikarkeppninni í handknattleik eftir öruggan sigur í kvöld á Viggó Kristjássyni og samherjum hans í Leipzig.

Leikurinn í kvöld var jafn í fyrri hálfleik. Gestirnir frá Rhein-Neckar Löwen voru með frumkvæðið en Viggó og félagar í Leipzig þó aldrei langt undan. Staðan í hálfleik 16-15 fyrir Rhein-Neckar.

Í síðari hálfleik skildu hins vegar leiðir. Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn á 7-1 kafla og staðan skyndilega orðin 23-16. Þennan mun náðu heimamenn í Leipzig aldrei að brúa þrátt fyrir stórleik frá Viggó Kristjánssyni.

Munurinn varð mest tíu mörk en lokatölur 36-27 Rhein-Neckar Löwen í vil. Eins og áður segir átti Viggó Kristjánsson fínan leik fyrir Leipzig. Hann skoraði átta mörk úr fjórtán skotum og þar af komu tvö markanna af vítalínunni.

Ýmir Örn var ekki á meðal markaskorara Rhein-Neckar Löwen en lét til sín taka í vörninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×