Auður segir í samtali við blaðamann að listin hafi alltaf fylgt sér og erfitt sé að finna einhvern einn ákveðinn vendipunkt.
Abstrakt umfjöllun um ást og frið
Í list sinni leikur Auður Lóa sér á landamærum hins hlutlæga og huglæga, skúlptúrs og teikningar, listar og veruleika. Hún vinnur markvisst með hversdagsfyrirbæri, fígúratíft, og myndmál sem hún sækir í forna jafnt og nýliðna sögu.
„Í minni vinnu vinn ég oft út frá hversdagslegum hugmyndum og útgangspunkturinn fyrir þessa sýningu var sá að mig langaði að gera sýningu sem fjallaði á einhvern abstrakt hátt um ást og frið.
Ég fór að velta fyrir mér hvítum dúfum, sem eru svona klisjukennd tákn um bæði.
Dúfurnar á sýningunni eru hins vegar bara að róta í ruslinu og borða franskar, sem er kannski viðeigandi á þessum miklu óeirðartímum.“
Hlaðvörp og hversdagslegir hlutir
Aðspurð segist Auður Lóa sækja innblásturinn úr öllum mögulegum áttum.
„Ég les og hlusta mikið á hlaðvörp. En svo eru það líka oft hversdagslegir hlutir sem verða á vegi mínum sem vekja áhuga minn og fyndnar ljósmyndir á Internetinu.“
Auður Lóa útskrifaðist af myndlistarsviði Listaháskóla Íslands árið 2015. Siðan þá hefur hún starfað sjálfstætt og í samstarfi við aðra listamenn. Hún hefur tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og opnaði sína fyrstu stóru einkasýningu, Já/Nei, árið 2021 í D-sal Listasafns Reykjavíkur.
Sýningin stendur til 26. nóvember næstkomandi.