Handbolti

Viggó í liði umferðarinnar eftir hundrað prósent leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viggó Kristjánsson er aðalmaðurinn hjá Leipzig.
Viggó Kristjánsson er aðalmaðurinn hjá Leipzig. epa/Tamas Kovacs

Viggó Kristjánsson, leikmaður Leipzig, er í úrvalsliði 12. umferðar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta fyrir frammistöðu sína í sigri á Hamm-Westfalen.

Seltirningurinn átti nær fullkominn leik í gær. Hann skoraði níu mörk úr níu skotum og gaf fjórar stoðsendingar. Hann kom því með beinum hætti að þrettán af 33 mörkum Leipzig sem vann leikinn, 33-23.

Rúnar Sigtryggsson tók við sem þjálfari Leipzig í síðustu viku og liðið hefur unnið báða leiki sína með hann við stjórnvölinn. Leipzig er í 12. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir tólf leiki.

Melsungen á tvo fulltrúa í úrvalsliði 12. umferðar; markvörðinn Nebojsa Simic og leikstjórnandann Agustin Casado. Niclas Ekberg (Kiel) og Milos Vujovic (Füchse Berlin) eru í hornunum, Johannes Golla (Flensburg) á línunni og Simon Jeppsson (Erlangen) í stöðu vinstri skyttu.

Viggó er í 9. sæti yfir markahæstu leikmenn þýsku deildarinnar með 61 mark. Þrjátíu þeirra hafa komið af vítalínunni. Hann hefur einnig gefið 28 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×