Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tíu mörk úr tólf skotum í leiknum og gaf þrjár stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk og gaf einnig þrjár stoðsendingar.
Kretzschmar fylgdist grannt með leiknum í Max Schmeling höllinni í Berlín enda starfar hann sem íþróttastjóri Füchse Berlin. Hann hefur þó sterka tengingu við Magdeburg enda lék hann með liðinu á blómaskeiði þess um aldamótin. Alfreð Gíslason var þá þjálfari Magdeburg og Ólafur Stefánsson besti leikmaður liðsins.
Eins og fleiri var Kretzschmar afar hrifinn af frammistöðu þeirra Gísla og Ómars í leiknum og hrósaði þeim í hástert í staðarblaðinu í Magdeburg.
„Með þá Gísla og Ómar er Magdeburg með tvo af fimm bestu leikmönnum heims innan sinna raða,“ sagði Kretzschmar.
Gísli og Ómar áttu risastóran þátt í því að Magdeburg varð þýskur meistari á síðasta tímabili, í fyrsta sinn í 21 ár, eða síðan Kretzschmar lék með liðinu. Íslensku landsliðsmennirnir hafa svo spilað enn betur á þessu tímabili og eru án nokkurs vafa tveir bestu leikmenn Magdeburg.
Eftir sigurinn í gær er Magdeburg fimm stigum á eftir toppliði Kiel en á tvo leiki til góða. Næsti leikur Magdeburg er gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn.