Handbolti

Bjarki Már Elíasson með 100% nýtingu í sigri

Árni Jóhannsson skrifar
Bjarki Már í leik með Vezprém
Bjarki Már í leik með Vezprém Handballveszprem.hu

Bjarki Már Elíasson fór mikinn með liði sínu Telekom Veszprém í ungversku úrvalsdeildinni í handbolta í dag gegn HÉP-Cegléd. Veszprém vann leikinn örugglega og var Bjarki næst markahæstur í liði sínu.

Leikurinn endaði með níu marka sigri Veszprém en staðan var jafnari eftir fyrri hálfleikinn þó að heimamenn hafi haft völd á vellinum. Leikar stóðu 20-16 í hálfleik og varnarleikur ekki í hávegum hafður hjá hvorugu liði. 

Markmaður heimamanna tók til sinna ráða í seinni hálfleik og varði hvert skotið á fætur öðru og þegar seinni hálfleikur var nærrum því hálfnaður þá var staðan 33-23 og næsta víst hvernig leikar myndu enda. Bjarki Már Elíasson var eins og áður segir næst markahæstur með sex mörk en kappinn þurfti ekki nema sex skot til að skora mörkin sín sex.

Þetta var seinasti leikur Veszprém fyrir jól og áramót og situr liðið í efsta sæti með 26 stig en er jafnt Szeged sem er skráð í annað sætið.

Það er góðs viti að Bjarki Már sé að finna fjölina sína svona vel þegar stutt er í heimsmeistaramótið í handbolta. Íslendingar leika einmitt með Ungverjum í riðli á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×