Tónlist

„Stelpum stundum stillt upp til að vera andstæðingar frekar en að vinna saman“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
FLOTT var að senda frá sér lagið Hún ógnar mér.
FLOTT var að senda frá sér lagið Hún ógnar mér. Hörpu Thors

Hljómsveitin FLOTT var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið „Hún ógnar mér“. Leikstjóri myndbandsins er Þura Stína og lagið fjallar um hvernig stelpum er stundum stillt upp til að vera andstæðingar frekar en að vinna saman.

Styrkja stöðu kvenna í tónlist

Myndbandið sýnir fjölbreyttan hóp kvenna frá ólíkum sviðum atvinnulífsins. Það hefur alltaf verið mikilvægt fyrir FLOTT að styrkja stöðu kvenna í tónlist til dæmis með því að sýna stelpur sem hljóðfæraleikara, lagahöfunda og framleiðendur. Ekki til að vera vinsælastar og ýta þeim niður sem koma á sjónarsviðið að gera eitthvað svipað.

„Við erum ótrúlega þakklátar þeim sem komu fram í myndbandinu. Þetta voru tveir tökudagar og auðvitað margar sem við vildum hafa sem komust ekki eða ekki hægt að ná í þannig að það má engin vera sár að vera ekki með! Engin djúpstæð pæling á bakvið það heldur hin sígilda íslenska leið að gera allt á síðustu stundu,“ segja meðlimir FLOTT.

Hér má sjá myndbandið en þar er Edda Andrésdóttir, sjónvarpskona á Stöð 2 til margra áratuga, í hlutverki dómara í hnefaleikabardaga.

FLOTT er hljómsveit sem var stofnuð árið 2020. Hún samanstendur af Vigdísi Hafliðadóttur söngkonu, Ragnhildi Veigarsdóttur hljómborðsleikara, Eyrúnu Engilbertsdóttur gítarleikara, Sylvíu Spilliaert bassaleikara og Sólrúnu Mjöll Kjartansdóttur trommuleikara. 

FLOTT samanstendur af Sólrúnu, Vigdísi, Eyrúnu, Sylvíu og Ragnhildi.Saga Sig

Tónleikar og plötuútgáfa

Það er ýmislegt spennandi á döfinni hjá stelpunum í FLOTT sem eru með mörg járn í eldinum.

„Við ætlum að halda okkar eigin tónleika á Húrra laugardaginn 11. febrúar. Svo erum við að framleiða plötu as we speak sem við vonumst til að gefa út fyrir sumarið og við hlökkum til að hefja þetta ár,“ segir Ragnhildur Veigarsdóttir. 

FLOTT hlaut íslensku tónlistarverðlaunin árið 2021 í flokkunum Bjartasta vonin og Popplag ársins fyrir lagið „Mér er drull“. Hún leggur áherslu á lög með miklum texta sem gefa raunsæja mynd af lífi ungs fólks í Reykjavík.


Tengdar fréttir

FLOTT skrifar undir hjá Sony: „Við erum bara í skýjunum“

Hljómsveitin FLOTT hefur skrifað undir samning hjá útgáfufyrirtækinu Sony í Danmörku. Vigdís Hafliðadóttir, söngkona hljómsveitarinnar, segir hljómsveitarmeðlimi í skýjunum enda sé um mikla viðurkenningu að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×