Gestirnir í Magdeburg höfðu yfirhöndina stærstan hluta leiksins, en eftir jafnar upphafsmínútur náði liðið upp fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn. Magdeburg hélt heimamönnum í hæfilegri fjarlægð út hálfleikinn og staðan var 14-19 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Magdeburg hélt forskoti sínu lengst af í síðari hálfleik og liðið náði mest sex marka forystu í stöðunni 23-29. Heimamenn skoruðu þá sex mörk í röð og jöfnuðu metin. Þetta reyndust seinustu sex mörk venjulegs leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.
Magdeburg náði aftur tökum á leiknum í framlengingunni og náði fljótt tveggja marka forystu. Í þetta sinn missti liðið forystuna ekki frá sér og vann að lokum nauman eins marks sigur, 34-35.
Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg í dag, ásamt því að gefa sjö stoðsendingar á liðsfélaga sína, en Ómar Ingi Magnússon var ekki með vegna meiðsla.