Vond vika varð enn verri hjá spænska stórveldinu Barcelona þegar liðið heimsótti Almeria í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Barcelona féll úr leik í Evrópudeildinni í miðri viku þegar liðið tapaði fyrir Manchester United en hefðu getað náð tíu stiga forystu á toppi deildarinnar með sigri í kvöld þar sem Real Madrid gerði jafntefli gegn Atletico Madrid í gærkvöldi.
Almeria var í fallsæti fyrir leikinn í dag en þeir náðu forystunni þegar El Bilal Toure skoraði á 24.mínútu.
Þó Barcelona hafi verið mun meira með boltann áttu þeir í vandræðum með að brjóta vörn Almeria á bak aftur og áttu til að mynda einungis eitt skot á mark í leiknum. Ekki fór það inn frekar en aðrar marktilraunir gestanna og lokatölur því 1-0 fyrir Almeria.