Undanúrslitin í norska bikarnum fara fram í dag og eru nokkrir Íslendingar í eldlínunni.
Í fyrri leik dagsins mættust Elverum og Arendal en Orri Freyr Þorkelsson er leikmaður Elverum og Hafþór Vignisson leikur með Arendal.
Elverum náði yfirhöndinni strax í fyrri hálfleik og leiddi 18-12 í hálfleik eftir að hafa komist mest sjö mörkum yfir. Þeir héldu frumkvæðinu út leikinn og unnu að lokum nokkuð þægilegan sigur, lokatölur 29-27 eftir að Arendal hafði minnkað muninn undir lokin.
Orri Freyr skoraði eitt mark fyrir Elverum í leiknum og Hafþór sömuleiðis eitt mark fyrir Arendal.
Í seinni leiknum í dag mætast svo Kolstad, lið Janusar Daða Smárasonar og Sigvalda Björns Guðjónssonar, og Kristiansand.
Úrslitaleikurinn fer fram á morgun.