Handbolti

„Hann var mjög hissa að fá símtal frá mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sveinsdóttir í leik með Haukum. Hér er hún í miðjunni með þeim Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Sonju Lind Sigsteinsdóttur.
Ragnheiður Sveinsdóttir í leik með Haukum. Hér er hún í miðjunni með þeim Elínu Klöru Þorkelsdóttur og Sonju Lind Sigsteinsdóttur. Vísir/Hulda Margrét

Haukakonan Ragnheiður Sveinsdóttir var gestur í Kvennakastinu hjá Sigurlaugu Rúnarsdóttur og ræddi meðal annars þann tíma þegar hún skipti óvænt yfir í Val á miðju tímabili.

Sigurlaug vildi fá að vita af hverju Ragnheiður skipti yfir í Val á sínum tíma en það kom mörgum á óvart enda búin að vera Haukakona alla tíð.

„Þetta var 2020 þegar Covid kemur. Þetta byrjar eiginlega á því að ég meiðist illa á baki snemma á tímabilinu. Ég er frá í kjölfarið í nokkrar vikur og svo kem ég til baka. Þá vildi þáverandi þjálfari ekkert nota mig sem bara kemur fyrir,“ sagði Ragnheiður Sveinsdóttir.

Átti mjög erfitt og leið ekki vel

„Þá tekur við tími þar sem mér leið ekki vel andlega. Ég átti mjög erfitt,“ sagði Ragnheiður en þjálfari Hauka á þessum tíma var Árni Stefán Guðjónsson.

„Ég upplifði líka vanlíðan á æfingum og leið ekki vel. Ég fer á fund með Þorgeiri (Haraldssyni) formanni í byrjun desember. Ég læt hann vita af stöðunni og um að mér líði ekki vel og að ég vildi hætti. Ég ætlaði ekki að fara í einhverju reiðikasti. Ég var ekki reið en þetta var langur tími,“ sagði Ragnheiður.

„Ég vildi bara láta hann vita af stöðunni og hvernig ég var. Svo er það í janúar þá erum við að spila við Aftureldingu sem voru neðstar í deildinni. Ég fær ekkert að koma við sögu þar og fékk lítið að vera með á æfingum. Þetta var augljóst fyrir mig eftir þennan leik,“ sagði Ragnheiður.

Fékk engin svör frá þjálfaranum sem vildi ekki nota hana

„Ég við þá um fund með þjálfaranum og vildi tala við hann. Hvað ég ætti að vinna í og ætti að vera betri í. Ég fékk þannig séð engin svör og það var ljóst að hann vildi ekki vinna með mér,“ sagði Ragnheiður.

„Þótt að handboltinn skipti mann rosalega miklu máli þá setur maður þetta í fyrsta sæti og eyðir rosalega miklum tíma í þessu. Ef manni líður ekki sérstaklega vel andlega í því sem maður er að gera þá verður maður að gera einhverjar breytingar,“ sagði Ragnheiður.

„Þetta var meira kvöð og mér kveið frekar fyrir því að mæta á æfingar heldur en ekki. Ég fer á fund með Aroni Kristjánssyni og segi bara að ég vilji hætta eða prófa eitthvað annað. Það var eiginlega fjölskylda mín sem talaði mig til um að hætta ekki. Þetta væri ekki rétta leiðin til að hætta í handbolta,“ sagði Ragnheiður.

Haukarnir studdu alltaf mjög vel við mig

„Frekar að skipta um umhverfi og reyna að líða betur. Eftir að ég tala við Aron þá fæ ég að rifta samningnum en það var alls ekki sjálfsagt að fá að rifta honum á miðju tímabili. Haukarnir studdu alltaf mjög vel við mig,“ sagði Ragnheiður.

„Ég hringi í Gústa (Ágúst Jóhannsson, þjálfara Vals) og tala við hann. Hann var mjög hissa að fá símtal frá mér en tók vel við mér. Þetta var mjög erfið ákvörðun enda búin að vera í Haukum frá sex ára aldri. Hvað þá að fara á miðju tímabili sem enginn vill gera,“ sagði Ragnheiður.

„Ég fór því yfir í Val þegar voru tveir dagar í að glugginn lokaðist. Svo var mín meiðslasaga rosaleg eftir að ég fer í Val. Svo var tímabilinu slúttað korteri eftir að ég kem í Val,“ sagði Ragnheiður.

Það má heyra hana tala um framhaldið og hvað tók hjá henni í Val með því að hlusta á hlaðvarpið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×