Handbolti

Viggó fór á kostum í Íslendingaslag | Magdeburg missteig sig í toppbaráttunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viggó Kristjánsson skoraði ellefu mörk fyrir Leipzig í kvöld.
Viggó Kristjánsson skoraði ellefu mörk fyrir Leipzig í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Fjórir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld og voru Íslendingar í eldlínunni í þeim öllum. Þar ber hæst að nefna stórleik Viggós Kristjánssonar er Leipzig vann öruggan átta marka sigur gegn Ými Erni Gíslasyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen, 37-29.

Viggó var markahæsti maður vallarins með ellefu mörk fyrir Leipzig, en liðið hefur verið á ótrúlegri siglingu eftir að Rúnar Sigtryggsson tók við stjórnartaumunum hjá félaginu.

Eftir erfiða byrjun á tímabilinu situr Leipzig nú í sjöunda sæti deildarinnar með 24 stig eftir 22 leiki og liðið hefur nú unnið fjóra deildarleiki í röð. Ýmir Örn og félagar sitja hins vegar í öðru sæti með 37 stig eftir 23 leiki, tveimur stigum á eftir toppliði Füchse Berlin.

Þá þurfu Þýskalandsmeistarar Magdeburg að sætta sig við þriggja marka tap gegn Hannover-Burgdorf, 34-31. Gísli Þorgeir Kristjánsson var næst markahæsti maður vallarins með átta mörk, en Magdeburg situr í fjórða sæti deildarinnar með 33 stig, sex stigum á eftir toppliðinu, en Magdeburg hefur leikið tveimur leikjum minna.

Að lokum mátti Íslendingalið Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, þola fimm marka tap gegn toppliði Fücshe Berlin og Minden tapaði gegn Stuttgart, 23-29. Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach og Sveinn Jóhannsson tvö fyrir Minden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×