Handbolti

Rosa­leg gabb­hreyfing Díönu Daggar sem sendi mark­vörðinn í annað póst­númer

Smári Jökull Jónsson skrifar
Díana Dögg í leik með íslenska landsliðinu.
Díana Dögg í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Jónína

Díana Dögg Magnúsdóttir átti sannkallaðan stórleik þegar Zwickau vann góðan sigur í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Eitt marka hennar í leiknum hefur vakið mikla athygli.

Zwickau vann mikilvægan sigur á Halle-Neustadt í þýsku úrvalsdeildinni í gær og var Díana Dögg markahæsti í liði Zwickau. Hún skoraði átta mörk í 27-21 sigri liðsins og gaf þar að auki fimm stoðsendingar á liðsfélaga sína.

Eitt mark sem Díana Dögg skoraði í leiknum hefur vakið verðskuldaða athygli. Hún þykist þá skjóta á markið og platar markvörð Halle-Neustadt all svakalega sem hendir sér í fjærhornið. Díana Dögg fer síðan utanvert á varnarmanninn og skorar í autt nærhornið.

Sjón er sögu ríkari en markið er hægt að sjá hér fyrir neðan en myndbandi af markinu var deilt á Instagramsíðu Handballdeutschland.tv sem er með rúmlega 80 þúsund fylgjendur.

Díana Dögg verður í landsliðshópi Íslands sem mætir Ungverjalandi í umspilsleikjum um sæti á heimsmeistaramótinu en liðið kemur saman í byrjun apríl.

Lið Zwickau er í ellefta sæti af fjórtán liðum í deildinni en er eftir sigurinn með þriggja stiga forskot á Halle-Neustadt og Neckarsulm sem situr í umspilssæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×