„Já, þeir geta það en það þarf mikið að ganga upp. Þeir nýttu sín færi vel í fyrra og spiluðu skemmtilegan fótbolta. Þeir þurfa að spilara agaðri fótbolta í ár ef ekki á illa að fara. Guðmundur Magnússon átti auðvitað stjörnutímabil í fyrra og það þarf svolítið mikið að ganga upp ef þeir ætla að bæta árangurinn frá því í fyrra,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.
Þrátt fyrir að Albert hafi ekki mikla trú á að Fram taki skref fram á við frá því í fyrra er hann ekki á því að leikmannahópur liðsins sé veikari en á síðasta tímabili.
„Nei, ég get ekki sagt það. Það er mikill missir af Almari [Ormarssyni] og að missa svona stóran karakter út. En Brynjar Gauti [Guðjónsson] nær núna heilu undirbúningstímabili. Það var mikið talað um varnarleikinn þeirra í fyrra og hann er leiðtogi,“ sagði Albert.
„Þeir fengu Aron [Jóhannsson] frá Grindavík sem fyllir kannski upp í þetta skarð sem Almarr skilur eftir sig. Ég myndi ekki segja að þeir séu með veikara lið en í fyrra. Það voru margir sem stigu stór skref í fyrra, í að vera efstu deildar leikmenn, og þeir þurfa að fylgja því eftir og sýna að þetta klassíska annars tímabils heilkenni hjá liði sem kemur upp eigi ekki við um Fram-liðið.“
Fyrsti leikur Fram í Bestu deildinni er gegn FH mánudaginn 10. apríl.