Íslenski boltinn

Um­mæli Ágústs komu Lárusi á ó­vart: „Hef ekki tekið eftir þessu“

Aron Guðmundsson skrifar
Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar
Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar Vísir/Bára Dröfn

Ágúst Gylfa­son, þjálfari karla­liðs Stjörnunnar í Bestu deildinni segir það hund­fúlt að heyra skila­boð frá þjálfurum annarra liða í deildinni sem skipi sínum leik­mönnum að sparka niður ungu leik­menn Stjörnunnar. Leik­menn séu sparkaðir út úr leikjum liðsins.

Breiða­blik vann á dögunum afar sann­færandi 2-0 sigur á Stjörnunni er liðin mættust á Sam­sung vellinum í Bestu deild karla. Eftir fyrstu fimm um­ferðir mótsins sitja Stjörnu­menn í fall­sæti með þrjú stig og að­eins einn sigur.

Í við­tali eftir leikinn gegn Blikum var Ágúst Gylfa­son, þjálfari Stjörnunnar. spurður sér­stak­lega út í frammi­stöðu Ísaks Andra Sigur­geirs­sonar 19 ára gamals leik­manns Stjörnunnar sem átti erfitt upp­dráttar í leiknum.

„Okkar ungu leik­menn eru bara sparkaðir niður. Í fyrstu fimm um­ferðunum eru þeir sparkaðir niður út og suður og maður heyrir skila­boð frá þjálfurum and­stæðingana á þá leið að það eigi bara að brjóta á þeim og sparka þá niður. Það er hund­fúlt að heyra þetta í fót­bolta hérna á Ís­landi, að leik­menn sem eru frá­bærir og að reyna að standa sig séu bara sparkaðir út úr leikjunum.“

Þetta sé ekki vanda­mál Stjörnunnar

Við­talið við Ágúst var til um­ræðu í upp­gjörs­þætti Bestu deildarinnar, Stúkan, á Stöð 2 Sport í gær þar sem Guð­mundur Bene­dikts­son, um­sjónar­maður þáttarins sagði þetta ekki vera vanda­mál Stjörnunnar.

„Þeir eru búnir að fá á sig níu mörk í síðustu þremur leikjum, það er stærra vanda­mál.“

Sér­fræðingar Stúkunnar, þeir Lárus Orri Sigurðs­son og Albert Brynjar Inga­son, tóku undir með Guð­mundi.

„Þetta eru 2,4 mörk fengin á sig að meðal­tali í leik,“ svaraði Lárus Orri. „Þessi um­mæli Gústa koma mér á ó­vart. Ég hef séð alla leiki Stjörnunnar á þessu tíma­bili og hef ekki tekið eftir þessu (að ungir leik­menn Stjörnunnar séu sparkaðir niður) sér­stak­lega.“

Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason, sérfræðingar StúkunnarVísir/Skjáskot

Albert Brynjar telur að með þessum um­mælum hafi leikur Stjörnunnar við Víking Reykja­vík á dögunum verið ofar­lega í huga Ágústs.

„Þar var Davíð Örn Atla­son, bak­vörður Víkinga, bara settur sér­stak­lega á Ísak Andra. Davíð Örn fer í við­tal eftir leik og þar talaði hann um að hann hafi viljað opna leikinn á því að fara svo­lítið fast í Ísak, bara eins og varnar­menn gera.“

Í leik Stjörnunnar og Breiða­bliks hafi Andri Rafn Yeoman verið settur sér­stak­lega á Ísak Andra.

„Ég held að Ágúst sé bara pirraður á að bæði þessi plön and­stæðinga Stjörnunnar virkuðu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×