Blær meiddist í leik með Aftureldingu gegn Fram um miðjan aprílmánuð. Í fyrstu var búist við því versta, að hann væri ökklabrotinn en svo var ekki.
Þessi öflugi leikmaður meiddist þó illa, hlaut beinmar og skaddaði liðbönd. Margir bjuggust við því að hann myndi ekki spila meira með Aftureldingu á tímabilinu en í gær kom hann óvænt við sögu í fyrsta leik Aftureldingar og Hauka í undanúrslitum Olís deildarinnar.
„Ég er bara með tognuð liðbönd, illa tognaður en á endanum er bara mikil vinna á bak við þessa endurkomu,“ sagði Blær í beinni útsendingu eftir sigur Aftureldingar á Haukum í gær. „Vinna sem ég hef lagt í þetta dag og nótt. Þetta er það eina sem ég hef hugsað um.
Í samráði við góða menn, Einar Einarsson sjúkraþjálfara og sjúkrateymi Aftureldingar, auk mikillar vinnu sem ég lagði í eftir að hafa sett mér markmið og tekið þetta skref fyrir skref. Þá gerast svona hlutir.“
Blær segir að þegar að komið er inn á völlinn gleymist allur sársauki. Hann viðurkenndi þó að finna smá fyrir meiðslunum á þeirri stundu sem viðtalið var tekið. Þrotlaus vinna er að baki þessari snemmbúnu endurkomu hans.
„Ég var bara á hækjum og gat varla stigið í löppina. Síðan leitaði ég bara ráða hjá fagaðila og við byrjum strax að vinna í þessu með styrktaræfingum, teygjum og með því að kæla endalaust. Ég byrjaði að synda á fullu til að halda mér í formi og æfa tvisvar til þrisvar sinnum á dag.“