Valur er Íslandsmeistari kvenna í handbolta árið 2023. Þetta varð ljóst eftir að liðið sópaði ÍBV út úr úrslitaeinvígi Olís deildarinnar í Vestmannaeyjum í dag.
„Ég get ekki lýst því, þetta er geðveikt,“ sagði Þórey í viðtali í Seinni bylgjunni aðspurð hvernig tilfinning því fylgi að vera orðin Íslandsmeistari. „Við töpuðum úrslitaeinvíginu í fyrra gegn Fram, það var svo svekkjandi og því er svo gott að geta klárað þetta núna.“
Hún segir að það sé afar sætt að tryggja Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli andstæðinganna í ÍBV.
„Já ég verð að viðurkenna það þó það hefði verið gaman að klára þetta heima á Hlíðarenda líka. Við vildum bara vinna bikarinn hér, klára þetta í þremur leikjum og vera ekki að hleypa óþarfa spennu í þetta einvígi.“
Það hafi þó farið um hana þegar að lið ÍBV beit frá sér af hörku í seinni hálfleik en lengi vel stóð munurinn á milli liðanna í aðeins einu marki.
„Já í seinni hálfleik, þegar að munurinn var kominn niður í eitt mark en svo skoraði hvorugt liðið mark í einhverjar fimm mínútur eða eitthvað.“
Tilfinningaskalinn sprakk síðan í leiks lok.
„Ég öskraði bara og grenjaði. Þetta hafði verið ansi svekkjandi vetur, bæði bikar- og deildarmeistaratitillinn runnu úr greipum okkar en á móti kemur mættum við þó alveg gríðarlega hungraðar inn í þessa úrslitakeppni. Við ætluðum að vinna. Þetta er titillinn sem skiptir öllu máli.“
Þórey er afar ánægð hjá Val.
„Þetta er frábært lið, það er ótrúlega góð stemning í þessu liði og við erum allar svo góðar vinkonur. Ég gæti eiginlega ekki beðið um betra lið en þetta.“