Handbolti

Magdeburg á toppinn án Íslendinganna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Magdeburg gátu fagnað í dag.
Stuðningsmenn Magdeburg gátu fagnað í dag. Vísir/Getty

Magdeburg er komið á topp þýsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik eftir tveggja marka sigur á Flensburg á heimavelli. Kiel getur náð toppsætinu á nýjan leik með sigri á Erlangen síðar í dag.

Hvorki Gísli Þorgeir Kristjánsson né Ómar Ingi Magnússon voru með Magdeburg í dag en báðir verða þeir frá út tímabilið vegna meiðsla. Teitur Örn Einarsson var hins vegar í leikmannahópi gestaliðsins frá Flensburg.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum. Þeir komust í 4-1 eftir fimm mínútna leik en heimaliðið Magdeburg var ekki lengi að taka við sér og var búið að jafna og ná forystunni í stöðunni 8-7 skömmu síðar. Magdeburg hafði eins marks forystu í hálfleik, staðan þá 16-15.

Magdeburg hélt frumkvæðinu í síðari hálfleik. Þeir komust í 23-20 um hann miðjan og leiddu 27-23 þegar innan við tíu mínútur voru eftir. 

Flensburg tókst að minnka muninn í eitt mark þegar rúm hálf mínúta var eftir á klukkunni en Michael Damgaard tryggði sigur Magdeburg með lokamarki leiksins. Lokatölur 30-28. Teitur Örn Einarsson komst ekki á blað hjá Flensburg í leiknum.

Magdeburg er sem stendur í efsta sæti deildarinnar með 51 stig. Liðið á eftir að spila þrjá leiki í deildinni en Kiel er í öðru sæti með 49 stig en á fimm leiki eftir, þar af einn síðar í dag gegn HC Erlangen. Fusche Berlin er í þriðja sæti einnig með 49 stig og á þrjá leiki eftir líkt og Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×