Handbolti

Sigvaldi og norsku stjörnurnar samþykkja launalækkun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigvaldi Guðjónsson verður fyrir verulegu tekjutapi næsta árið.
Sigvaldi Guðjónsson verður fyrir verulegu tekjutapi næsta árið. VÍSIR/VILHELM

Sigvaldi Guðjónsson er meðal leikmanna Kolstad sem hafa samþykkt að taka á sig lækkun launa vegna fjárhagsvandræða liðsins.

Jostein Sivertsen, rekstrarstjóri Kolstad, greindi frá því á blaðamannafundi í dag að sjö leikmenn liðsins hefðu samþykkt að laun þeirra yrðu lækkuð um þrjátíu prósent næsta árið.

Auk Sigvalda eru þetta norsku landsliðsmennirnir Sand­er Sagosen, Gør­an Johann­essen, Magn­us Rød, Vetle Eck Aga, Tor­bjørn Ber­gerud og Magn­us Gullerud. Christian Berge, þjálfair Kolstad, hefur einnig tekið á sig launalækkun.

Leikmönnunum sjö verður umbunað með því verðlaunafé sem Kolstad vinnur sér inn á næsta tímabili og ef félagið verður rekið með hagnaði sem nemur meira en einni milljón norskra króna.

Sigvaldi gekk í raðir Kolstad frá Kielce í fyrra. Hann varð þrefaldur meistari með liðinu á síðasta tímabili.

Svili hans og félagi í íslenska landsliðinu, Janus Daði Smárason, gekk í raðir Magdeburg frá Kolstad í gær.

Kolstad varð þrefaldur meistari heima fyrir á síðasta tímabili og samdi við hálft norska landsliðið. Félagið var þó ekki jafn ríkt og það virtist vera og á í verulegum fjárhagsvandræðum. 

Illa hefur gengið að afla tekna og utanaðkomandi aðstæður hafa haft áhrif á fjárhaginn. Meðal þeirra eru veiking norsku krónunnar, verðbólga og áhrif stríðsins í Úkraínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×