Hákon var að hefja sitt þriðja tímabil hjá Gummersbach, sem leikur undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar. Elliði Snær Viðarsson leikur einnig með liðinu.
Hákon hafði fallið neðar í goggunarröðinni hjá Gummersbach eftir komu þriðja vinstri hornamannsins til liðsins. Hann hafði því lítið sem ekkert komið við sögu í æfingaleikjum Gummarsbach á undirbúningstímabilinu og í fyrstu tveimur leikjum deildarkeppninnar.
„Vegna stöðunnar hef ég verið að leita að öðru liði til þess að spila með. Loksins í dag þá samdi ég við Hagen,“ sagði Hákon Daði í samtali við handbolta.is í gær.
Hagen leikur sem áður segir í næstefstu deild Þýskalands og hafnaði liðið í tíunda sæti á síðasta tímabili. Hákon þekkir vel til í deildinni, enda spilaði hann í þýsku B-deildinni með Gummersbach og lék stórt hlutverk er liðið vann sér inn sæti í efstu deild.