Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Sama hvar ég bý í heiminum, vakna ég alltaf um hálf níu leytið og upplifi alla daga sem hátíð.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Í mörg ár hef ég byrjað daginn á því að nánast pissa í mig úr hlátri yfir brandara á netinu. Þannig fer ég síðan alltaf glöð inn í daginn.
Oftast finn ég Minions video.“
Er eitthvað sem þú ert vön að gera í daglegu lífi sem annað fólk myndi telja frekar óvenjulegan vana?
„Eflaust þykir sumum það frekar óvenjulegt að ég fer alltaf í háhælaða skó þegar ég elda.
Mér finnst einfaldlega ólíkt skemmtilegra að elda í háhæluðum skóm og vera skvísa heima.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er á fullu núna að undirbúa netnámskeiðið Lærðu að elska þig sem byrjar á mánudaginn. Ég er líka með fólk í einkatímum hjá mér frá Íslandi og á Ítalíu og hef nýtt mér myndspjallstæknina í mörg ár til að kenna þerapíuna mína og fyrir aðra einkatíma og námskeið.
Síðan er ég að springa úr spenningi yfir skvísuferð sem verður á Amalfí á Ítalíu þar sem ég bý. Þessi ferð heitir reyndar Finndu töfrana þína með Bryndísi og Ósk og er í viku í október fyrir konur frá Íslandi.
Leiðbeinandi með mér er Bryndís Kjartansdóttir og það sem mér finnst alltaf standa uppúr í þessum ferðum, er hvað ég kynnist alltaf mörgum mögnuðum konum.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Mér finnst best að skipuleggja vinnuna mína í göngutúrum. Helst göngutúrum í náttúrunni.
Síðan elska ég alla andlega næringu og er alltaf að læra að skoða sjálfan mig. Sem nýtist mér vel til að efla getuna til að skipuleggja vinnuna mína og standa rétt að henni.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin? (virk kvöld)
„Mér finnst lífið svo geggjað að ég fer alltof seint að sofa.“