Sandra er að hefja sitt annað tímabil með Metzingen sem leikur í þýsku úrvalsdeildinni. Liðið var nálægt því að komast í Evrópukeppni í fyrra en hafnaði þá í 6. sæti deildarinnar.
Í gær mætti liðið liði Neckarsulm í fyrstu umferð deildarinnar. Sandra byrjaði tímabilið heldur betur af krafti því hún var markahæst í liði Metzingen sem vann 34-20 sigur á útivelli.
Sandra skoraði níu mörk í leiknum og gaf þar að auki fjórar stoðsendingar. Sandra virðist vera í feiknaformi sem eru góðar fréttir fyrir íslenska landsliðið sem tekur þátt á heimsmeistaramótinu í nóvember næstkomandi.
Þá lék Díana Dögg Magnúsdóttir með liði Zwickau sem tapaði gegn Blomberg-Lippe 32-20. Díana Dögg skoraði þrjú mörk en hún líkt og Sandra er uppalin hjá ÍBV.