Íslenski boltinn

„Það er gengið í skrokk á honum leik eftir leik“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í Víkinni í gær.
Heimir Guðjónsson á hliðarlínunni í Víkinni í gær. vísir/hulda margrét

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir Kjartan Henry Finnbogason, framherja liðsins, ekki fá sanngjarna meðferð frá dómurum landsins.

FH tapaði fyrir Víkingi, 2-1, í 25. umferð Bestu deildar karla í gær. FH-ingar komust yfir með marki Björns Daníels Sverrissonar á 31. mínútu og voru með forystu í hálfleik. 

Eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik þyngdist róður FH þegar Ástbjörn Þórðarson var rekinn af velli. Víkingar nýttu sér liðsmuninn, skoruðu tvö mörk á fjórum mínútum undir lokin og tryggðu sér sigurinn.

Kjartan Henry var í byrjunarliði FH og lék fyrstu 72 mínútur leiksins Í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn kvartaði Heimir yfir meðferðinni sem framherjinn hefur fengið í sumar.

„Kjartan Henry er klókur og ég hef engar áhyggjur af honum,“ sagði Heimir er hann var spurður út í gula spjaldið sem Kjartan Henry fékk fyrir að sparka boltanum í burtu í seinni hálfleik. 

„En ef þú tekur sumarið í sumar með Kjartan Henry þá er þetta náttúrulega bara orðin einhver vitleysa. Ég meina það er gengið í skrokk á honum leik eftir leik og hann fær einstaka sinnum aukaspyrnu. Svo má hann ekki pípa á menn þá er dæmd aukaspyrna á hann. Þetta er búið að ganga svona núna í allt sumar og það er bara alveg ótrúlegt að fjölmiðlar skuli ekki hafa fjallað um þetta og ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið tekið á þessu.“

Kjartan Henry gekk í raðir FH frá KR fyrir tímabilið. Hann hefur skorað níu mörk í Bestu deildinni og er markahæsti leikmaður Fimleikafélagsins í sumar.

FH er í 5. sæti Bestu deildarinnar með 37 stig, þremur stigum frá Stjörnunni sem er í 4. sætinu sem gefur þátttökurétt í Sambandsdeild Evrópu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×