Atvinnulíf

Vinkonurnar með nammipoka að horfa á Santa Barbara og Leiðarljós

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Arna Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands og stjórnarkona í Vísindagörðum HÍ, segir mikla gósentíð hafa verið í uppsiglingu í íslensku sjónvarpi þegar hún var unglingur. Allt frá því að Dallas var ljósið í myrkrinu.
Arna Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands og stjórnarkona í Vísindagörðum HÍ, segir mikla gósentíð hafa verið í uppsiglingu í íslensku sjónvarpi þegar hún var unglingur. Allt frá því að Dallas var ljósið í myrkrinu. Vísir/Vilhelm

Arna Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Háskóla Íslands og stjórnarkona í Vísindagörðum HÍ, rifjar upp þá gósentíð  sem hófst þegar Dallas var ljósið í myrkrinu og sápuóperur eins og Santa Barbara og Leiðarljós hófu sýningar í íslensku sjónvarpi.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Klukkan er stillt á 7.40 í þeim tilgangi að tryggja að menntaskólanemi heimilisins komi sér af stað, svo kúri ég gjarnan aðeins áfram. Ég er langt frá því að vera týpan sem sprett upp á morgnana og fer í handahlaupum af stað.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég elska þegar ég get tekið því rólega á morgnana, fengið mér kaffi og sest við tölvuna á náttfötunum. Ég er oft á fjarfundum á morgnana, þó ekki á náttfötunum, vegna verkefna erlendis og hef því oft vinnudaginn heima, funda, fer yfir tölvupósta og helstu verkefni áður en ég fer út í daginn.“

Þegar þú varst unglingur: Hvaða sjónvarpssería var í uppáhaldi? 

Þegar ég var unglingur var að hefjast mikil gósentíð í sjónvarpi og úrvalið að stóraukast, samanborið við fyrri ár þar sem Dallas var ljósið í myrkrinu. Uppáhaldið á þessum tíma var auðvitað Beverly Hills 90210 og Melrose Place, enda lifðu karakterarnir þar miklu draumalífi að mér fannst og svo voru þau auðvitað svo falleg!

Ég verð einnig að játa að á menntaskólaárunum lá ég líka í sápudrama, meistarastykkjum eins og Santa Barbara og Leiðarljósi. Við vinkonurnar rukum oft heim eftir skóla með nammi í poka til að ná sýningu dagsins og heimalærdómurinn fékk að bíða.“

Arna stýrir nú undirrannsókn Áfallasögu kvenna sem heitir Lóa og er markmið hennar að þróa einfalt hugrænt inngrip sem getur bætt líðan fólks eftir áföll. Outlook er aðal skipulagstólið en eins líka gamla góða aðferðin að skrifa verkefnalista á blað og strika yfir.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Starfið mitt er mjög fjölbreytt blanda af kennslu, leiðbeiningu framhaldsnema, rannsóknum og stjórnunarstörfum. Til dæmis er ég önnur aðalrannsakenda rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna, ásamt Unni Önnu Valdimarsdóttur, þar sem við erum nú á fullu við að vinna úr þeim gögnum og koma út niðurstöðum, ásamt því að leggja lokahönd á nýjan spurningalista sem verður sendur til þátttakenda á næstunni. 

Þá stýri ég undirrannsókn Áfallasögu kvenna sem heitir Lóa og er markmið hennar að þróa einfalt hugrænt inngrip sem getur bætt líðan fólks eftir áföll. 

Sú rannsókn hefur verið í undirbúningi í nokkur ár og er stefnan að hefja hana á næstu dögum og er ótrúlega spennandi verkefni. 

Einnig má nefna að nýverið tók ég sæti í stjórn Vísindagarða, sem eru í eigu Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, og staðsettir í Vatnsmýrinni. Ég er mikil háskólamanneskja og hefur þótt frábært að sjá hvernig háskólasvæðið hefur þróast til hins betra á síðustu árum. Vísindagarðar hafa spilað stórt hlutverk í þróun svæðisins, meðal annars með tilkomu Grósku. Það má segja að Vísindagarðar séu samfélag nýsköpunar og rannsókna og er mikil og spennandi uppbygging fram undan þar. Sem dæmi má nefna fyrirhugaða uppbyggingu á Djúptæknikjarna, auk nýrrar byggingar á lóð við hliðina á Grósku, sem ber vinnuheitið Viska.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Eins og fyrir mörg er Outlook mitt helsta haldreipi. Þegar margt er í gangi og verkefnalistinn langur finnst mér einnig stórgott að grípa í blað og penna og skrifa lista upp á gamla móðinn, enda mjög þakklátt að fá að strika yfir unnin verk!“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Það kemst fljótt yfir mig værð á kvöldin, og eftir eitthvað áhorf er ég oftast komin upp í rúm um ellefuleytið.“


Tengdar fréttir

Forstjórinn sem endar stundum ein á dansgólfinu

B týpan Brynja Baldursdóttir, forstjóri Greiðslumiðlunar Íslands, segir umferðateppuna úr Garðabæ alveg gefa frábærar gæðastundir á morgnana og þegar hún er spurð um tónlist og dans, segir hún það oftast frekar auðvelt að ná sér út á gólfið í sveiflu.

Forstjórinn byrjar daginn á að leggjast aftur upp í rúm og á gaddadýnu

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, segist vel gaddaður þegar hann fer fram úr og nýtur gæðastundar með eiginkonunni. Þá búinn að liggja á Shakti-gaddadýnu og hlusta á jóga-nidra hugleiðslu. EOS aðferðarfræðin í vinnunni er hans helsta skipulagstól.

Er skrambi góð á grillinu og segir humarpítsuna vera besta

Berglind Ólafsdóttir fjármálastjóri Hörpu er B týpan og á það því til að fara að búa til pestó, múslí eða sultu á kvöldin og enda þá með að fara of seint að sofa. Berglind segist skrambi góð á grillinu á sumrin og þar er það humarpítsa sem varð óvart til í Stykkishólmi um árið, sem er best.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×