Íslenski boltinn

Arna Sif getur verið valin best annað árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar 2022. Hún gæti fengið verðlaunin aftur í ár.
Arna Sif Ásgrímsdóttir var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar 2022. Hún gæti fengið verðlaunin aftur í ár. vísir/anton

Búið er að greina frá því hvaða leikmenn koma til greina sem þeir bestu og efnilegustu í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Lokaumferð Bestu deildarinnar fer fram í kvöld en þá kemur einnig í ljós hver verður valinn besti og efnilegasti leikmaður tímabilsins.

Eins og í fyrra hefur verið gert opinbert hverjar urðu efstu fjórar í kjörinu á besta og efnilegasta leikmanni Bestu deildarinnar.

Tveir leikmenn Íslandsmeistara Vals koma til greina sem besti leikmaður Bestu deildarinnar. Þetta eru Bryndís Arna Níelsdóttir, markahæsti leikmaður deildarinnar, og Arna Sif Ásgrímsdóttir sem var valin best í fyrra. Auk þeirra koma Þróttarinn Katie Cousins og Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, til greina sem besti leikmaður Bestu deildarinnar.

Í kjörinu á efnilegasta leikmanni deildarinnar voru tvær Valskonur meðal fjögurra efstu; markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir og kantmaðurinn Ísabella Sara Tryggvadóttir. Katla Tryggvadóttir úr Þrótti kemur einnig til greina sem og Stjörnukonan Sædís Rún Heiðarsdóttir. Katla var kjörin efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili og getur því unnið verðlaunin í annað sinn.

Sýnt verður beint frá öllum þremur leikjum dagsins í Bestu deild kvenna á sportrásum Stöðvar 2. Á morgun verður tímabilið svo gert upp í uppgjörsþætti Bestu markanna klukkan 20:00 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×