Gestirnir í Rhein-Neckar Löwen höfðu frumkvæðið fyrstu mínútur leiksins, en heimamenn tóku forystuna þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður og litu aldrei til baka eftir það. Mest náðu Refirnir frá Berlín fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum að honum loknum, 17-14.
Heimamenn náðu fljótt sjö marka forskoti í síðari hálfleik og héldu gestunum í Rhein-Neckar Löwen í hæfilegri fjarlægð það sem eftir lifði leiks. Niðurstaðan varð nokkuð öruggur sex marka sigur Füchse Berlin, 38-32, og liðið trónir því enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir níu umferðir.
Þeir Ýmir Örn Gíslason og Arnór Snær Óskarsson komust ekki á blað fyrir Rhein-Neckar Löwen í kvöld, en liðið situr fimmta sæti deildarinnar með níu stig.