Leikurinn fór fram á Nuke. ÍBV hóf leikinn í sókn og sigraði fyrstu þrjár lotur leiksins. Atlantic tók sína fyrstu í lotu fjögur og staðan þá 1-3. Hægt og rólega náðu leikmenn Atlantic að vinna sig aftur í leikinn eftir slaka byrjun í vörninni.
Í áttundu lotu náði Atlantic loks að jafna leikinn í 4-4. Eftir að jafna missti Atlantic ekki úr takti í fyrri hálfleik, en ÍBV hafði engin svör við vörn Atlantic undir lok fyrri hálfleiks. LeFluff og Brnr toppuðu fellutöflu Atlantic í fyrri hálfleik með 14 og 17 fellur.
Staðan í hálfleik: 10-5
Eftir góða byrjun sem rann út í sandinn hjá ÍBV þurftu þeir kraftaverk gegn sókn Atlantic-manna til að eiga möguleika á sigri. Atlantic sýndi þó að sókn þeirra var Eyjamönnum um of og Atlantic sigraði allar lotur seinni hálfleiks.
Lokatölur: 16-5.
ÍBV situr enn í neðsta sæti deildarinnar án sigurs en Atlantic finnur loks sinn annan sigur á tímabilinu og fer því upp í miðjuslaginn með fjögur stig.