Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég rumska við morgunútvarpið upp úr sjö. Það tekur mig smástund að sigla í gang og ég fer fram úr um klukkan átta.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja oftast á því að setja góða tónlist á fóninn. Það er gott að hlusta á tónlist á morgnana. Brynjan sem fylgir oft daglegu amstri er ekki komin upp og skilningarvitin eru opin.
Svo les ég fréttir og það sem mér finnst forvitnilegt á Vísi og víðar. Ég sakna þess svolítið að fá dagblöð inn um lúguna á morgnana, enda var ég alinn upp við blöðin og vann lengi á þeim.
Kann að meta það í byrjun dags að fara yfir fjölbreytta pakka sem ritstjórnir setja saman eftir kúnstarinnar reglum.
En ég les þó Heimildina, Moggann og Viðskiptablaðið í spjaldtölvu.“
Hvaða tónlistarstjarna dreymir þig um í laumi að vera?
„Ég er nú frekar sáttur í eigin skinni en gæti nefnt Teit Magnússon, sem er í uppáhaldi hjá mér. Hann er hæfileikaríkt söngvaskáld, djúpvitur og með tímalausa og heillandi sýn á jarðvistina.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég er að koma hugbúnaðarfyrirtækinu Lóalóa á lappirnar með félögum mínum. Það er virkilega gaman og krefjandi.
Við tókum þátt í viðskiptahraðlinum Startup Supernova hjá Klak núna í haust. Fengum þar góða innsýn til að koma okkur fyrir í sprota- og nýsköpunarumhverfinu á Íslandi, sem er á fleygiferð og ótrúlega heillandi.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég skrifa lista eins og vindurinn. Þeir halda mér á beinu brautinni þannig að ég rati ekki af leið þegar hugurinn fer á flug.
Ég tek mér oft smástund í skipulagningu í byrjun hvers dags. Þá eru markmiðin í hænuskrefum, svo stækka þau í listum sem ég skrifa fyrir vikur og mánuði.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Á miðnætti. Oftast eftir sjónvarpsgláp. Mig langar, eins og svo marga, að keyra bókalestur betur í gang. Náði mikilvægum áfanga í þessu plani mínu þegar ég fékk mér gleraugu fyrir ekki svo löngu. Var þá búinn að vera fattlaus í tómu brasi að reyna að lesa bækur úr fókus í nokkurn tíma.“