Fyrir leikinn í dag var Valur með 16 stig eftir átta leiki í Olís-deildinni og átti leikinn í dag til góða á Hauka sem voru tveimur stigum ofar.
Leikurinn í dag varð aldrei sérstaklega spennandi. Valur komst í 10-6 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður og leiddi 15-10 í hálfleik.
Valskonur juku muninn síðan í síðari hálfleiknum. Þær komust í 23-13 um miðjan hálfleikinn og unnu að lokum þrettán marka sigur. Lokatölur 32-19 og Valur því upp að hlið Hauka á toppi deildarinnar. KA/Þór er hins vegar áfram í 6. sætinu með fimm stig.
Hildigunnur Einarsdóttir var markahæst Valskvenna með 8 mörk og Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Lilja Ágústsdóttir skoruðu 5 hvor. Þær eru allar í landsliðshópi Arnars Péturssonar sem heldur á heimsmeistaramótið innan skamms. Sara Sif Helgadóttir var frábær í marki Vals og varði helming þeirra skota sem hún fékk á sig.
Hjá KA/Þór var Nathalia Baliana markahæst með fimm mörk og Matea Lonac varði 13 skot í markinu sem gerir tæplega 30% vörslu.