Handbolti

Ís­lensk töp í þýsku úr­vals­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sandra Erlingsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Metzingen í kvöld.
Sandra Erlingsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Metzingen í kvöld. Vísir/Pawel

Sandra Erlingsdóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir þurftu báðar að sætta sig við tap með liðum sínum í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.

Það styttist í að deildirnar í Evrópu taki hlé vegna heimsmeistaramótsins sem hefst síðar í mánuðinum. Sandra á einn leik eftir með Metzingen en leikurinn í kvöld hjá Zwickau var sá síðasti fyrir hlé. Bæði Sandra og Díana Dögg eru í íslenska landsliðshópnum.

Sandra og liðsfélagar hennar í Metzingen mættu Oldenburg á útivelli í kvöld en fyrir leikinn voru liðin á svipuðum slóðum í deildinni. 

Heimakonur í Oldenburg byrjuðu betur og komust í 5-1 í upphafi leiks og gestirnir úr Metzingen náðu lítið að saxa á forskotið í fyrri hálfleiknum. Staðan að honum loknum 14-10 fyrir heimakonur. Í síðari hálfleik stigu leikmenn Oldenburg svo enn frekar á bensíngjöfina. Þær náðu mest átta marka forystu og sigurinn virtist svo gott sem í höfn.

Leikmenn Metzingen játuðu sig hins vegar ekki sigraða. Liðinu tókst að minnka muninn í tvö mörk þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Í stöðunni 26-24 skoruðu heimakonur hins vegar þrjú mörk í röð og tryggðu sér sigurinn. Lokatölur 30-26 og Oldenburg lyftir sér þar með uppfyrir Metzingen í töflunni. Metzingen situr í 7. sæti með 8 stig.

Sandra Erlingsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Metzingen í kvöld og komu þau öll af vítalínunni.

Díana góð í tapi Zwickau

Díana Dögg Magnúsdóttir átti góðan leik í liði Zwickau sem mátti sætta sig við sjö marka tap á heimavelli gegn Bensheim/Auerbach. Fyrri hálfleikur var í járnum og leiddu gestirnir 14-12 að honum loknum.

Leikurinn hélst jafn langt inn í síðari hálfleikinn en í stöðunni 21-20 fyrir Bensheim/Auerbach skoruðu gestirnir átta mörk gegn aðeins einu marka Zwickau og tryggðu sér að lokum þægilegan sigur.

Lokatölur 32-25 en Zwickau er í 11. sæti deildarinnar með 4 stig og í síðasta örugga sætinu. Díana Dögg skoraði sex mörk úr átta skotum í leiknum og var næst markahæst í liði Zwickau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×