Viktor stóð í marki Nantes stærstan hluta leiksins í kvöld og varði alls 14 skot og var með rétt um 39 prósent hlutfallsmarkvörslu.
Gestirnir í Saran skoruðu fyrsta mark leiksins, en það var í eina skiptið í leiknum sem liðið hafði forystuna. Viktor og félagar náðu fljótt tökum á leiknum og höfðu fjögurra marka forskot stærstan hluta fyrri hálfleiks, en staðan í hálfleik var 16-14 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Heimamenn í Nantes tóku svo öll völd á vellinum í síðari hálfleik og það varð fljótt ljóst í hvað stefndi. Sigur Nantes var aldrei í hættu eftir hálfleikshléið og liðið fagnaði að lokum öruggum 14 marka sigri, 38-24.
Nantes situr nú í öðru sæti frönsku deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki, einu stigi á eftir toppliði PSG sem þó á leik til góða. Saran situr hins vegar á botni deildarinnar með þrjú stig.